Annáll ársins 2008 - svona frá mínum bæjardyrum séð.

Árið 2008 verður væntanlega í fersku minni hjá mér af mörgum ástæðum sem hlaupið verður yfir í fljótheitum hér á eftir: Janúar. hófst með miklum væntingum um góða tíð og gott ár í sölu fasteigna eins og 2007 sannarlega hafði verið en fljótt sáust blikur á lofti um að ekki yrði árið eftirminnilegt á þeim bænum í persónulega lífinu var janúar hreint ágætur utan veikinda föður míns sem höfðu ágerst frekar en hitt. Febrúar: var rólegheitamánuður í sölu og ekki var loku fyrir það skotið að það bæri talsvert á því að árið yrði með rólegheitamóti í þeirri deildinni. Persónulega var febrúar bara fínn. Mars. Byrjaði frábærlega á einstaklega skemmtilegri ferð til Tenerife með minni heittelskuðu eiginkonu og Ragnari og Björk vinafólki okkar sem bæði fögnuðu 50 ára afmæli sínu í ferðinni auk þess sem ég átti afmæli á milli þeirra þannig að þetta varð ein samfelld afmælisveisla og veðrið var frábært en þarna strax byrjaði krónan að falla gagnvart öðrum gjaldmiðlum og ég man eftir því að það var hrópað yfir hópinn:Evran er kominn yfir 100 kallinn. Apríl: byrjaði vel fyrir mig, ég losnaði við spangirnar sem ég hafði verið með síðustu tvö árin, helvítis pjatt og alveg rosalega mikið svona 2007 dæmi sem kostaði 1,5 millj. pening sem ég væri alveg til í að eiga í dag en þetta var víst nauðsynlegt. Konan mín fór í uppskurð og var óvinnufær og ekki brúkleg í húsmóðurhlutverkinu þann mánuðinn þannig að ég fór á kostum sem húsmóðirin ég sjálfur eins og ég bloggaði hreint endalaust um og útlistaði ég þar eigið ágæti. MAÍ: versti mánuður sem ég hef upplifað, faðir minn Friðgeir Þorkelsson lést þann 6. maí eftir langvarandi veikindi aðeins rétt tæpra 67 ára og var mánuðirinn því algjörlega helgaður því sem fylgir andláti hans og eftirköstum þess. Ekki fór mikið fyrir vinnu þann mánuðinn enda var markaðurinn nær því að vera stopp og nú fór að fækka í bransanum sem kannski mátti alveg gerast. Júní og Júlí voru ágætir mánuðir, fóru mikið í að reyna að komast yfir andlát pabba og læra á þá hluti sem hann hafði séð um í bústaðnum okkar í borgarfirði auk samveru með ættingjum og vinum sem voru misduglegir þó að kíkja á okkur hjónin í sveitinni. Eitthvað var fellihýsið brúkað en ljóst er að ekki eru það gáfulegustu kaup okkar hjóna enda svolítið svona 2007. Í ágúst var farið að gera klárt fyrir komandi haust og vetur og ekki grunaði mann að haustið og byrjun vetrar yrðu með þeim hætti sem raun varð. Kreppan skall á okkur eins og flesta landsmenn í september og október og vinnufélögum mínum á Valhöll fór fækkandi, Viggó farinn, Ellert vinur minn og samstarfsfélagi til margra ára fór með sinni ektakonu til kanarí í frí fram í febr. eða mars. Salan var hreint út sagt léleg og enn syrti í álinn, fasteignasölum fór fækkandi bæði fyrirtækjum og starsfmönnum. Persónulega voru þessir mánuðir þokkalegir hjá mér að vísu lítið að gera í vinnunni en heima fyrir gekk allt með ágætum hjá mér og mínum, sonurinn á fullu í vinnunni, dóttirin á fullu í skólanum, kötturinn í fínum málum og konan í mjög góðum málum seldi vel í sinni vinnu og allt í góðu standi. Nóvember var svipaður og mánuðirnir á undan nema helv. kreppufréttir daginn út og daginn inn sem ekki hjálpuðu til við fasteignasölu. Desember var ágætur framanaf en ekki var mikið um kaup og sölur þann mánuðinn, kreppan hélt sínu striki og ég er ekki frá því að hún hafi haft talsverð áhrif á jólagjafirnar og jólastandið fyrir þessi jól. Náði mér í heiftarlega flensu rétt fyrir jólin og í fyrsta skipti í 24 ára búskapartíð okkar hjóna tók ég lítinn þátt í jólaundirbúningnum. Jólin voru þó yndisleg þrátt fyrir allt, talsvert borðað, mikið lesið og púslað, þó var rosalega skrýtið að hafa Pabba ekki með okkur og var mér mikið hugsað til hans þessi jólin en svona getur lífið verið. Ég sá á eftir einum samstarfsfélaganum enn í des. Þóra er hætt hjá okkur og að sjálfsögðu er mikil eftirsjá í henni eins og hinum en svona er helv. kreppan að fara með okkkur.
Sonur minn þarf að fara fljótlega í uppskurðinn sem búinn er að hanga yfir honum undanfarin ár á augunum og verður væntanlega óvinnufær í einhverja mánuði, honum dauðkvíður fyrir þessu og okkur líka en þetta verður ekki geymt öllu lengur. Að lokum ætla ég að óska öllum gleðilegs nýs árs og ætla ég að vona að árið 2009 verði betra en 2008 var en maður spyr sig. Kv. tótinn



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband