Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Verðbólgumarkmið - er hægt að frysta verðtrygginguna ???

Fyrirsjáanlegt er gífurlegt gengisfall krónunnar og hækkun verðbólgunnar þegar lánapakkinn verður kominn til okkar og gengi handónýtu íslensku krónunnar verður sett á flot. Ekki segja Geir og Solla. Í morgun heyrði ég svo viðtal við Gylfa formann ASÍ og fann hann allt því til foráttu að frysta verðtryggingu lána þar sem þetta hefði svo slæm áhrif á lífeyrissparnað landans. Ég hef lengi sagt að áherslan hjá verkalýðsforystu landsins er svo gífurleg á að spara pening til ellinnar (sem við mörg hver náum hvort eð er ekki) að við höfum ekki efni á að lifa í dag. Tökum markmið seðlabankans sem dæmi:  "Meginmarkmið Seðlabankans er stöðugt verðlag, skilgreint sem hækkun neysluverðs um 2½% á tólf mánuðum. Þolmörk :Stefnt er að því að verðbólgan verði að jafnaði sem næst verðbólgumarkmiðinu. Víki hún meira en 1½ prósentu í hvora átt ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta. "(heimild sedlabanki.is) Flest okkar sem höfum tekið lán í innlendum gjaldmiðli höfum haft þetta að leiðarljósi þegar að við höfum skrifað undir lán okkar þ.e. að ekki ættum við að búast við því að verðbólgan fari langt frá þessu markmiði. Nú er ljóst að við flotsetningu Krónunnar verður um geigvænlega hækkun á verðbólgu að ræða og nefndar eru tölur allt að 30-35 % (eða jafnvel þaðan af hærri)og það liggur fyrir að þetta mun koma niður á okkur aumum skuldurum þessa lands. Er ekki ráð að frysta verðtrygginguna (við 4-5 % eins og Ingólfur Ingólfsson hefur talað um) í þann tíma sem það tekur verðbólguna að hjaðna aftur. Það er spurning hvort við getum neitað að taka á okkur þessa hækkun og vísað í markmið æðstu peningamálastofnunar landsins.

Maður spyr sig

Totinn

 


Loksins talaði einhver Íslensku um ástandið !

Var að hlusta á Davíð nokkurn Oddson í Kastljósinu og verð að segja eins og er að eftir að vera búinn að hlusta á hvern spekinginn á fætur öðrum koma í fjölmiðla og skýra atburði síðustu daga fyrir okkur almúganum en ekkert skilið annað en að ríkið væri að fara á kúpuna kemur einhver sem skýrir þetta út á íslensku. Hvað svo sem menn kunna að segja um Davíð þá er það ljóst að það á ekki nokkur að velkjast í vafa eftir þennan þátt út á hvað lögin ganga. Það á að aflúsa bankana eftir óðafyllerí stjórnenda síðustu ára sem með gassagangi og græðgi hafa komið bönkunum á kaldan klaka í fullvissu um að ef illa færi þá myndi ríkið bjarga þessu öllu. Hvar eru allir peningarnir sem þessir "snillingar" (sem voru hverrar krónu virði að sögn þegar launaumslög þeirra útbólgin komu fyrir sjónir okkar smælingjanna) höfðu af snilld sinni skapað eigendum sínum ? Það er komið í ljós að skýjaborgin er hruninn og í stað þess að láta okkur, börnin okkar og barnabörn súpa seyðið af þessu hefur verið ákveðið að láta bankana fara og afskrifa stóran hluta erlendra skulda þeirra sem jafnmisgáfaðir útlendir snillingar voru svo heimskir að lána vitringunum. Ég vorkenni þeim sem létu plata sig í að púkka undir þessa menn með því að kaupa hluti í þessari vitleysu. Ég hef fulla samúð með því fólki og veit að margir eiga um sárt að binda um þessar mundir en ekki þeir sem stýrt hafa þessum fyrirtækjum. Þeir eru sjálfsagt búnir að koma fjármunum í öruggar geymslur og skattaskjól víða um heiminn og hlægja að öllum þeim sem þeir sannfærðu með snilldartalanda að vera með. Ég segi eins og Steingrímu J. það á að elta þessa fýra á enda veraldar til að reyna að ná í þennan gróða. Ég þakka guði og lukkunni fyrir að hafa ekki gengið þessari vitleysu á vald þá væri staðan sjálfsagt önnur og verri á mínu skinni. Takk fyrir greinargóð svör Davíð.

Maður spyr sig.

Tótinn 


Hrun á fasteignamarkaði - hverjum er um að kenna ?

Nú er erfitt að sitja rólegur undir þessum eilífu neikvæðu fréttum af fasteignamarkaðnum. Ég er búinn að vinna við fasteignasölu frá 1989 og hef nú séð ýmsa hluti gerast. Það hefur sýnt sig að fjárfesting í fasteignum er einhver besta fjárfesting sem þú getur ráðist í. Að sjálfsögðu hafa komið lægðir í þennan markað eins og aðra markaði en aldrei hefur verið reynt með beinum árásum forráðamanna þessa lands að handstýra þessum markaði sem nú. Hver silkihúfan á eftir annari kemur í fjölmiðla og hvetja landsmenn til að fjárfesta ekki í fasteignum. Mér er spurn hverra hagsmuna er verið að gæta með svona tali ? Jú eina sem ég get séð er að hér er með öllum ráðum verið að verðfella verð fasteigna til að reyna að slá á verðbólguna og það virðist sem þessir snillingar haldi að eina leiðin til að ná niður verðbólgunni sé að verðfella eigur landsmanna með handafli. Ég set stórt spurningamerki við að vera með verð fasteigna inní mælingu neysluvísitölunnar þar sem neysluvísitalan á að mæla daglega neyslu þjóðarinnar og hve oft kaupir hver fjölskylda fasteign um ævina ? Jú um það bil þrisvar eða svo. Ég segi því burt með fasteignaverð úr mælingu vísitölunnar.  Ég segi því hiklaust nú er nóg komið af neikvæðum fréttum af fasteignamarkaðnum og nær væri að blása til sóknar.

Fjárfestu í fasteign það hefur sýnt sig að það er fjárfesting til framtíðar.


Íbúðarlánasjóður tímaskekkja eða hvað

Í morgunblaðinu í dag má lesa grein frá ungliðahreyfingu sjálfstæðisflokksins þar sem fullyrt er að íbúðarlánasjóður sé tímaskekkja og aðeins til þess fallinn að halda niðri vöxtum í þjóðfélaginu. Ég leyfi mér að efast um að hér sé verið að hugsa um hagsmuni heildarinnar heldur að halda uppi merkjum "einkavinavæðingarinnar" Íbúðarlánasjóður hefur verið eina stofnunin sem ekki hefur skert lánveitingar sínar þrátt fyrir mikinn þrýsting frá bönkum og öðrum lánastofnunum.  Allar tilraunir til yfirtöku íbúðarlánasjóðs af þeirra hálfu og þrýsting á að stofnunin verði lögð niður eiga skilyrðislaust að vera stöðvaðar í fæðingu. Hverjum þjónar íbúðarlánasjóður er spurt og að sjálfsögðu er svarið ljóst það er að íbúðarlánasjóður hefur hingað til þjónað öllum landsmönnum þó að sjálfsögðu sé það augljóst að miðað við lánareglur er ungu fólki ekki gert auðvelt fyrir að eignast þak yfir höfuðið. Ekki eru það bankarnir sem hjálpa mikið við þann gjörning í dag. Það er hverjum manni það ljóst sem vita vill að ef bankarnir væru búnir að ná yfirtökum í íbúðarlánasjóði eða búnir að láta leggja hann niður eins og vilji er til þá væri vaxtastig útlána allt annað en það sem við sjáum í dag eða miklu mun hærra. Mitt mat er það að eina leiðin til að hjálpa bæði ungu fólki og ekki síst þeim sem búa á landsbyggðinni sé að styðja við og auka veg íbúðarlánasjóðs sem mest er mögulegt. Ekki er von til að forsætisráðherra vor eða samráðherrar hans í Sjálfstæðisflokknum séu mér sammála en dentid densorg þeir eru kosnir af okkur og ég er ekki þar undanskilinn, en líklega verður breyting þar á miðað við síðustu ummæli þeirra. Að sjálfsögðu má lagfæra ýmislegt í útlánareglum íbúðarlánasjóðs en alls ekki má leggja hann niður í núverandi mynd.

Bjóðum ekki hættunni á yfirtöku bankanna á stofnun allra landsmanna heim heldur rekum íbúðarlánasjóð í því sem næst óbreyttri mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband