Jóladagatal Tótans upprifjun dagar 1-5.

Jóladagatal Tótans dagur eitt - Kæri Geir ! Dagur eitt púnktur. Ég veit þú getur ekki trúað því hvað ég var ánægður að sjá þig svona rólegan og heimilislegan í þættinum hjá Jóni Ársæli um daginn. En það var nú samt alveg óþarfi að senda mér ICESAVE reikninginn, ég bað ekkert um hann fyrir þessi jól. Mamma var alveg brjáluð þegar hún sá hann og situr nú heima og bryður róandi . Ég sjálfur er samt alveg rosalega ánægður með að þú skulir hafa munað eftir mér fyrir þessi jól. Og konan þín hún Ingibjörg (held ég)er líka mjög fín og bakar fínar pönnukökur. Svo var líka rosalega gaman að heyra hvað þú átt góða vini á hinum norðurlöndunum sem vildu allir gefa þér pening.  Ég skal lofa að vera rosalega góður í dag svo ég fái eitthvað í skóinn í nótt  en plís ekki fleiri reikninga!!!! Þinn Tótinn  Jóladagatal Tótans - dagur tvö - Kæri Davíð.  Alveg er það óskiljanlegt hvað þið eruð góðir við mig þessa dagana, ég fór mjög seint að sofa í gærkvöldi og var frekar óþekkur en fékk samt í skóinn. Þessi líka flotta GENGISFELLING með karamellukremi og ég fékk í magann . Ég þurfti að fara til læknisins og reikningurinn jú hann var að sjálfsögðu eins og ein afborgun af myntkörfuláninu sem ég var að taka til að borga fyrir síðustu skógjöf ykkar (enda er ég ekki kominn með afsláttarkort frá tryggingarstofnun enþá). Gengisfellingin réðist að Icesavereikningnum og við það hækkaði hann um 400 milljónir króna og mamma fékk taugaáfall og er kominn á geðdeild. !!! Þið þurfið ekkert endilega að gefa mér í skóinn á hverju kvöldi en það væri nú virkilega fallegt af ykkur Geir vini þínum að henda inn svona eins og einni vaxtalækkun ef þið eruð að þessu á annað borð. Þinn vinur Tótinn. Jóladagatal Tótans - dagur 3 kæri Steingrímur.

Ég þakka þér ofboðslega fyrir sendinguna í gærkvöldi . En svakalega var ég skúffaður þegar að í ljós kom að það var ekkert í umslaginu sem þú gafst mér nema einn lítill blaðsnepill sem á stóð: Ég er á móti. Gengisfellingin og Icesave reikningurinn fóru í hár saman og voru að rífast um hvorum þú værir meira á móti. Ég reyndi að stilla til friðar og segja þeim að þú værir rosa góður kall en værir bara svona almennt á móti öllu. Þau trúðu mér ekki og ég sit hérna eftir með svakaglóðarauga og er að drepast í hausnum. Mamma er komin heim en er ekki mönnum sinnandi og ég held að hún sé líka að verða svona fúll á móti týpa.  Ég verð að segja það að ég er líka að verða svona pínulítið á móti kall eins og þú en ég get bara ekki ákveðið alveg hverju ég á að vera á móti. Ég vona að þú komir aftur í kvöld og þá verði sko lausnir í umslaginu frá þér.  Kær kveðja þinn Tótinn  Jóladagatal Tótans dagur fjögur - Kæri Árni M.Þú kominn í leitirnar og ég varð ekkert lítið hissa þegar ég fékk frá þér kengbognu Kreppuna . Þú hefðir átt að sjá upplitið á Icesave reikningum  og Karamelluhúðaðri gengisfellingunni  þær urðu ekkert smá vandræðalegar enda um afkvæmi þeirra að ræða. Gengisfellingin varð alveg æf út í Icesavereikningin fyrir að gera ekki ráðstafanir til að verjast þessum getnaði eins og Davíð var búinn að biðja um og nú talast þau ekki við og andrúmsloftið er orðið þrúgandi. Kengbogna kreppan situr bara róleg, étur upp allar eigur okkar mömmu og mamma tekur þetta svo nærri sér að hún tímir ekki orðið neinu. Árni það er þér að kenna að núna tímir hún ekki að setja rúsínur í jólakökurnar sem mér þykja svo góðar af því að kreppan er búinn að éta þær allar og ekki er hægt að kaupa nýjar út af gengisfellingunni.  Mamma mín er að jafna sig aðeins á þessu en hún er búinn að taka skóinn úr glugganum til öryggis og hún skrúfaði aðra hvora peru úr jólaljósunum til að spara rafmagnið allt út af þessari fjandans kengbognu Kreppu. Mikið svakalega obboðslega væri ég glaður ef þú gætir komið og náð í vini þína svo ég eigi gleðileg rúsínujól. Þinn vinur Tótinn     Jóladagatal Tótans dagur fimm -Kæri Davíð !Ja hérna þú aftur það gat nú svo sem verið að þú þyrftir að troða þér aftur, ekki misskilja mig undir öllum venjulegum kringumstæðum hefði ég verið ekkert smá ánægður með að fá það sem þú gafst mér en eins og þú veist þá eru heimilsaðstæður okkar ekkert venjulegar núna og ég veit alveg að ég bað um þetta en kommon. Sjóðheita gengishækkun ! Veistu hvað þú ert búinn að gera mér? Kengbogna Kreppan og Karamelluhúðaða Gengisfellingin eru flúnar inní herbergi og neita að láta sjá sig fyrr en hún er farin til baka og ég verð að sofa í stofunni með Icesave reikningnum sem er orðinn eitthvað svo fölur. Mamma hins vegar er hæst ánægð og er búin að ráða pólverjann aftur í vinnu. Heldurðu að hún sé ekki búin að bjóða Sjóðheitu gengishækkuninni að búa hjá okkur og nú talar hún ekkert við mig en hún fór beint með gengishækkunina út að versla og búrið hennar er fullt af rúsínum og karamelluhúðaða gengisfellingin og kengbogna kreppan eru komnar í pillurnar hennar. Perurnar í jólaskreytingunni eru allar komnar í aftur og mamma er búin að segjast ætla að kjósa þig ef jólasveinaflokkur þinn bjóði fram í næstu kosningum. Við Icesave reikningurinn erum búnir að fá nóg og ætlum út að skemmta okkur saman, hann segist hafa aðgang að einkaþotu og við ætlum að skjótast til Akureyrar ég reikna með að þurfa að borga það allt sjálfur. Mér er alveg sama þó þú hafir ætlað að vera eitthvað fyndinn en þetta er of mikið af því góða. Ég ætla ekki að vera vanþakklátur en gerðu það taktu eitthvað af þessum kvikindum með þér ef þú kemur aftur. Þinn vinur Tótinn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Góður Tóti...

Hallgrímur Guðmundsson, 6.12.2008 kl. 22:01

2 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Gerir þú þetta sjálfur?  Þetta er ein besta lesning sem ég hef séð hér í bloggheimum. Eins og mér finnst Skrámur leiðinlegur í 12 dögum jóla.

Ingibjörg Hinriksdóttir, 6.12.2008 kl. 23:59

3 identicon

Jú þetta  er ég að dunda mér við í rólegheitunum Ingibjörg og ég er búinn að lofa sjálfum mér að halda þessu áfram til jóla hvort sem ykkur líkar betur eða verr. hehhe.

þórarinn m Friðgeirsson (IP-tala skráð) 7.12.2008 kl. 07:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband